Össur og lýðræðið

ÞEGAR mál álvers Alcan í Straumsvík er skoðað og hvernig á því stendur að Samfylkingin er að gefa það fordæmi að hægt sé að kjósa fyrirtæki út úr sveitarfélagi er gott að fara aftur í tímann og skoða afstöðu manna eins og Össurar Skarphéðinssonar til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.

Á síðasta flokksþingi Alþýðuflokksins sáluga, sem haldið var á Grand Hótel Reykjavík í september 1998, var aðaltilgangurinn að samþykkja sameiningu við hluta úr Alþýðubandalaginu og eitthvað af öðrum pólitískum heimilisleysingjum.

Þegar flokksþingsfulltrúar mættu til þingsins voru munnleg skilaboð látin ganga, að búið væri að samþykkja allar ályktanir og tillögu og þessu öllu handsalað af þing-mönnum úr báðum flokkum í eldhúsi hjá þingmanni frá Stokkseyri .

Þegar skipað var í málefnanefndir á þinginu, valdi undirritaður að sitja í Atvinnu & umhverfisnefnd. Fyrir nefndinni fór Össur Skarphéðinsson alþingismaður.

Textinn um atvinnumál var hefðbundinn græningjatexti "Eitthvað annað", en í texta um umhverfismál var skorinort sagt að Ísland ætti tafarlaust að samþykkja Kyoto-bókunina.

Ég byrjaði að röfla og sagði að þetta kæmi í veg fyrir að við gætum nýtt þá miklu og hreinu orku sem til væri á Íslandi. Össur nefndarformaður setti upp gamlan svip ritstjóra Þjóðviljans og sagði að hér yrði engu breytt og lauk okkar orðaskaki með því að hann sagði að ég gæti reynt að fara með breytingartillögu beint til þingforseta.

Ég fór heim og samdi breytingartillögu sem var svipuð og Sif Friðleifsdóttir umhverfisráðherra fékk samþykkta sem Íslenska ákvæðið við Kyoto-bókunina, okkur öllum til heilla, nema kommar og græningjar hafa ekki fyrirgefið henni þetta.

Þingforseti var Árni Gunnarsson, góður og gamall alþýðuflokksmaður, tók við tillögu minni og bókaði hana. Farið var með tillöguna til fjölritunar og dreifingar til þingfulltrúa. Þingfulltrúar fengu aldrei tillöguna, því einhver sýndi það frumkvæði að henda tillögubunkanum í ruslafötu. Á sunnudagsmorgni þegar taka átti tillöguna fyrir kom til mín kaldrifjuð kommakona og bað mig um að draga tillöguna til baka því að búið væri að aðlaga textann minni tillögu. Ég krafðist þess að sjá textann og sá að engu hafði verið breytt og sagðist halda áfram að mæla fyrir minni tillögu. Klukkan 11 á sunnudagsmorgni flutti ég tillögu mína og upphófst þá mikið þvarg við forystumenn á þinginu. Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins, sá að ég hafði meirihluta í salnum og hljóp því upp og bað um að tillögunni yrði vísað til flokksstjórnar, það var hefð fyrir að samþykkja slíkt þó að vitað væri að það væri ruslakarfan

Þá kem ég að því, hvernig þessi gamla saga snertir álver Alcan í Straumsvík og þessa sérstöku kosningu sem er framundan í Hafnarfirði.

Niðurstaða mín er sú að þetta sé samsæri komma & græningja, því þeir vita að ef álver Alcan verður kosið út úr sveitarfélaginu, mun ekkert stórfyrirtæki hætta á að fjárfesta á Íslandi, því aldrei sé hægt að átta sig á hvernig stjórnmál séu á þessu annars gjöfula landi.

Höfundur er forstjóri Kemis ehf.


Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Við skulum þá láta tímann skera úr um hvort þú reynist sannspár, hvort "ekkert stórfyrirtæki [muni] hætta á að fjárfesta á Íslandi."

Hvers vegna ættum við svosem að vilja fyrirtæki inn í landið sem ekki ber virðingu fyrir vilja fólksins. Það er fullt af fyrirtækjum sem ætlast til að Ísland sé bananalýðveldi til að þóknast þeim. Ísland er fyrst og fremst lýðveldi, ekki þjónustukelling óprúttinna erlendra vælukjóa sem heimta meiri gróða sama hvað það kostar (okkur).

Svo eru ekki allir kommar sem ekki vilja verksmiðjur. Margir "kommar" vilja nú akkúrat fleiri verksmiðjur því þeir eiga eitt sameiginlegt ykkur forstjórunum, að bera hag verkamanna í brjósti sér og vilja einmitt mörg og góð störf, ekki satt? 

Ólafur Þórðarson, 2.4.2007 kl. 21:15

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband